Ávarp stjórnarformanns

Jón Már Halldórsson

Sveigjanleikinn er okkar styrkur

Í fyrra hélt áfram þróun sem hófst í raun árið 2013. Dregið hefur úr iðnaðar- og orkuverkefnum, en hefðbundnari byggingarverkefni hafa komið á móti.

Það er mikill styrkur hjá fyrirtæki eins og okkar að búa yfir nægilegum sveigjanleika til að geta flutt áherslupunktana með þessum hætti milli sviða. Það hefur ekki verið sársaukalaust, en okkur hefur tekist vel að aðlagast breyttum aðstæðum á markaði.

 

Samkeppni á byggingarmarkaði er öðruvísi en á hinum sérhæfðari markaði iðnaðar- og orkuverkefna. Því er mikilvægt að marka sér sérstöðu og bjóða viðskiptavininum upp á þjónustu sem hann fær ekki annars staðar.

Það höfum við meðal annars gert með því að taka þá þekkingu sem við höfum aflað okkur í iðnaðarverkefnunum og nýta hana í byggingargeiranum til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi. Það gerum við m.a. með því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á heildarumsjón með verkefnum. Í því felst að við sjáum um hönnun, innkaup, umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.

 

Svona er málum til að mynda háttað við Austurhöfn, þar sem við höfum yfirumsjón með hönnun og byggingu hótels og íbúðakjarna. Þetta fyrirkomulag er ekki algengt í íslenskum byggingargeira og höfum við því verið að vinna hér ákveðna frumkvöðlavinnu.

„Sjálfbærni felur í sér fleira en bara það að minnka kolefnisfótspor framkvæmda og rekstur bygginga. Sjálfbærni snýst einnig um að hanna byggingar þar sem fólki líður vel.“

Jón Már Halldórsson, stjórnarformaður

Þá höfum við einnig lagt aukna áherslu á sjálfbærni í hönnun. Fólk er að verða meðvitaðra og áhugasamara um umhverfismál og það er margt sem hægt er að gera í hönnun og byggingu mannvirkja til að minnka umhverfisáhrif við framkvæmdir og rekstur.

 

Vissulega getur þetta hækkað stofnkostnað byggingarinnar, en í langflestum tilfellum er þetta hagkvæmara yfir líftíma mannvirkisins. Sem einfalt dæmi má nefna að með því að kosta meiru til einangrunar byggingar þá  kostar minna að hita hana upp.

 

En sjálfbærni felur í sér fleira en bara það að minnka kolefnisfótspor framkvæmda og rekstur bygginga. Sjálfbærni snýst einnig um að hanna byggingar þar sem fólki líður vel. Hluti af þessari nálgun á verkfræðihönnun er því að leggja aukna áherslu á innivist byggingarinnar, lýsingu, loftræstingu, hitastýringu og þess háttar.

Við erum sannfærð um að með því að leggja áherslu á sjálfbærni í okkar hönnun erum við ekki aðeins að bjóða viðskiptavinum okkar upp á verðmætari þjónustu, heldur einnig að gera byggingarnar þægilegri fyrir notendur. Þá skiptir máli að við erum að hjálpa viðskiptavininum að leggja sitt af mörkum í þágu náttúrunnar.

 

Við erum með nokkuð stórar skrifstofur í Ungverjalandi og Þýskalandi  og er sú starfsemi aðallega á sviði jarðhita. Líta má á þær sem dyr okkar að erlenda markaðnum. Það er mikil samvinna á milli þessara skrifstofa og ætlunin er að auka hana enn frekar.

 

Hjá okkur starfar stór hópur sérfræðinga í jarðhitaframkvæmdum og við höfum verið að vinna að verkefnum í Mið-Evrópu á því sviði. Þessi verkefni hafa komið inn í gegnum skrifstofurnar í Ungverjalandi og Þýskalandi. Þetta eru verkefni sem við gætum ekki sinnt ef ekki væri fyrir þessar erlendu skrifstofur.