Rekstur

Sterkari grunnur

EBITDA samstæðunnar var tæpar 290 m.kr. árið 2017 samanborið við um 460 m.kr. árið 2016. Tekjur samstæðunnar voru tæplega 5,8 milljarðar króna og jukust lítillega á milli ára. Eigið fé félagsins í árslok er 1,2 milljarður og eiginfjárhlutfall 43%.

Grunnrekstur fyrirtækisins gekk vel í fyrra, þrátt fyrir litla tekjuaukningu á milli ára. Afkoman markast aftur á móti af því að rekstrarkostnaður hækkaði umtalsvert frá árinu á undan. Hækkun kostnaðar er að mestum hluta vegna launahækkana og endurmats á ákveðnum eignum og kröfum í bókum okkar, auk erfiðs rekstrarumhverfis erlendis.

 

Eiginfjárstaða fyrirtækisins er hins vegar mjög sterk og handbært fé frá rekstri jókst um 100 milljónir á milli ára. Þá höfum við haldið áfram að lækka skuldir fyrirtækisins og erum komin mjög vel á veg með að greiða þær upp.

„Þá höfum við haldið áfram að lækka skuldir fyrirtækisins og erum komin mjög vel á veg með að greiða þær upp.“

Örn Guðmundsson, fjármálastjóri

Eins og hjá öðrum fyrirtækjum hefur launakostnaður hækkað og nam hækkunin í fyrra rúmum 7,6%. Hefur það mikið að segja í fyrirtæki þar sem launakostnaður er um 75% af rekstrarkostnaði. Mikið af öðrum kostnaði hjá okkur er aðkeypt þjónusta sem aftur hækkar með hækkandi launum. Má því segja að ríflega 80% af rekstrarkostnaði okkar hreyfist með hækkandi launum í samfélaginu. Á móti höfum við náð að hagræða á öðrum sviðum, þannig að rekstrarkostnaður hefur ekki hækkað sem nemur launahækkunum.

Gengissveiflur hafa haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi okkar. Þannig hefur samkeppnisstaða okkar gagnvart erlendum mörkuðum versnað töluvert vegna styrkingar íslensku krónunnar.

 

Önnur áskorun felst í því að hlutfall hefðbundinna byggingarverkefna hefur aukist hjá okkur á kostnað iðnaðar- og orkuverkefna. Í þessum geira er samkeppnin öðruvísi en í sérhæfðari iðnaðar- og orkuverkefnum. Það kallar á aðlögunarhæfni og sveigjanleika að geta lagað reksturinn að þessum breytta veruleika og ég tel að það hafi tekist vel hjá okkur.

EBITDA/Tekjur

Eiginfjárhlutfall/Vaxtaberandi skuldir

Stöðugildi